Um kórinn

Kammerkór Hafnarfjarðar er sjálfstætt starfandi kór. Hann var stofnaður í byrjun ársins 1997. Síðan þá hefur hann eflst og er nú talinn með betri kórum sinnar tegundar hér á landi. Í nóvember 1998 gaf kórinn út geisladiskinn Gaudete! og hlaut hann frábæra dóma.

Kórinn hefur ávallt leitast við að hafa efnisskrá sína sem fjölbreyttasta og hefur flutt veraldlega og kirkjulega kórtónlist allt frá miðöldum fram til nútímans auk annarrar tónlistar, til dæmis djass og þjóðlagatónlistar.

Kammerkórinn hefur af og til lagt land undir fót og meðal annars haldið tónleika á Akranesi, Grafarvogi, Kirkjubæjarklaustri, Mývatnssveit og Njarðvík. Kórinn hefur fimm sinnum farið í tónleikaferðir erlendis:

  • Kaupmannahöfn 2002
  • Vínarborg 2008
  • Berlín 2014
  • Barcelona 2018
  • Toscana, Ítalíu 2023

Stjórnandi kórsins frá og með hausti 2023 er Kári Þormar. Hann tók við stöðunni af Helga Bragasyni, sem hafði stjórnað kórnum frá stofnun hans.

Það nýjasta

Deila á samfélagsmiðlum