Þess er minnst um allan heim að í ár eru 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeusar Mozarts. Kammerkór Hafnarfjarðar og Kammersveit Hafnarfjarðar munu standa fyrir glæsilegum Mozart-tónleikum í Víðistaðakirkju sunnudaginn 5. mars kl. 20:00.

Á efnisskránni er klarinettukonsert í A-dúr, sem er eitt af síðustu verkum Mozarts og jafnframt með þeim fallegri. Mozart skrifaði konsertinn fyrir vin sinn, Anton Stadler, en einleikari á tónleikunum verður Ármann Helgason.

Kammerkórinn mun syngja Missa solemnis sem er fyrir fjóra einsöngvara, kór og hljómsveit. Einsöngvarar verða Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, Jóhanna Ósk Valsdóttir, alt, Ólafur Rúnarsson, tenór og Benedikt Ingólfsson, bassi.

Auk þessara verka verða flutt kirkjusónata í C-dúr og Ave verum corpus fyrir kór og strengjasveit.

Það nýjasta

Deila á samfélagsmiðlum