Kammerkór Hafnarfjarðar heldur sína árlegu aðventutónleika þriðjudaginn 3. desember kl. 20:00.
Kórinn verður í suður-amerískri sveiflu að þessu sinni. Á dagskrá tónleikanna eru þrjú verk eftir argentínska tónskáldið Ariel Ramírez: Misa Criolla, Navidad nuestra og Alfonsina y el Mar.
Einsöngvari á tónleikunum er Margrét Hrafnsdóttir sópran. Auk hennar kemur fram sjö manna hljómsveit sem aðstoðar kórinn við að ná fram suðrænni og seiðandi stemmningu.
Stjórnandi kórsins er sem fyrr Helgi Bragason.
Miðaverð er 3500 krónur. Miða má nálgast hjá kórfélögum fram að tónleikadegi, eða á vef kórsins, kammerkor.is. Þar má einnig gerast styrktarfélagi kórsins. Þannig fást tvennir miðar á næstu þrenna tónleika kórsins fyrir 6500 króna árgjald.
Um höfundinn og verkin
Ariel Ramírez (1921-2010) fæddist í borginni Santa Fe í Argentínu. Þar hóf hann píanónám. Hann heillaðist snemma af tónlist ýmissa argentínskra þjóðarbrota, eins og Kreólanna.
Misa Criolla (Kreólsk messa) er samin árið 1963. Hún er undir sterkum áhrifum frá suður-amerískri þjóðlagahefð, einkum argentínskum takti og laglínum. Hún er sungin með hinum hefðbundna messutexta, nema trúarjátningin er í styttri útgáfu.
Navidad nuestra (Fæðingin okkar) er samin árið 1964. Þar er jólaguðspjallið sagt í sex köflum. Hún er sömuleiðis samin undir áhrifum frá suður-amerískum þjóðlögum.
Alfonsina y el Mar (Alfonsina og hafið) er tileinkað argentínsku skáldkonunni Alfonsina Storni sem endaði líf sitt þegar hún gekk í sjóinn árið 1938.