Friðrik Bjarnason organisti og tónskáld var einn þeirra sem mest áhrif höfðu á mótun tónlistaruppeldis Íslendinga á fyrri hluta síðustu aldar. Hann var fæddur á Stokkseyri en flutti til Hafnarfjarðar árið 1908 og starfaði þar allar götur síðan, sem tónlistarkennari, kórstjóri og organisti Hafnarfjarðarkirkju.
Obbi tónsmíða Friðriks eru kórverk, fyrir karlakóra, barnakóra og blandaða kóra, en hann samdi einnig nokkur einsöngslög og orgelverk.
Dagana 5. og 6. júní heiðra Kammerkór Hafnarfjarðar, Karlakórinn Þrestir, Kór Öldutúnsskóla og Kvennakór Öldutúns minningu Friðriks Bjarnasonar með flutningi á úrvali kórverka hans. Tónleikarnir, sem eru liður í lista- og menningarhátíðinni Björtum dögum, verða í Hafnarborg og hefjast kl. 20:00 báða dagana.