Kammerkór Hafnarfjarðar og Kór Öldutúnsskóla halda sameiginlega vortónleika í Hafnarfjarðarkirkju miðvikudaginn 12. maí kl. 20:00. Á tónleikunum verða flutt verk eftir franska tónskáldið og organistann Gabriel Fauré. Kammerkórinn syngur sálumessu Faurés (requiem) og Öldutúnskórinn syngur stytta messu (messe basse). Auk þess verður flutt mótetta Faurés, Cantique de Jean Racine.
Einsöngvarar á tónleikunum eru Ágúst Ólafsson, bariton og Leó Snæfeld Pálsson, sópran. Með kórunum leika Guðmundur Sigurðsson, organisti, Sophie Schoonjans, hörpuleikari og Hlín Erlendsdóttir, fiðluleikari. Stjórnendur eru Brynhildur Auðbjargardóttir og Helgi Bragason.
Almennur aðgangseyrir á tónleikana er 2000 kr. en 1500 kr. fyrir nemendur og eldri borgara.